MunadurUnadur

Margir líta á október mánuð sem meistaramánuð en í mínum huga er hann mánuður munaðar og unaðar. Þetta er afmælismánuðurinn minn og eftir því sem ég verð eldri þá hef ég betur gert mér grein fyrir hvað það er mikill munaður að fá eitt ár í viðbót.

Það sem ég hef nú þegar gert er að m.a. að fara á tónleika, í leikhús og sund. Ég leyfði mér þann unað að sitja lengi, lengi einn laugardag á bókakaffihúsi – sem er hreinn munaður í mínum huga. Eftir að hafa lesið mér til um helstu tískustrauma kom ég heim og fór inn í fataskápinn minn og náði í allt sem glitraði (konan er alin upp á diskótímabilinu svo það má finna ýmislegt). Ég mátaði en var rekin jafnharðan úr af dætrum mínum sem sögðu mig ekki mjög smart, þrátt fyrir að tískublöðin hvöttu til nýrrar “metal” byltingar. “Oh jæja..” það er algjör munaður að eiga dætur sem sem segja manni til (sex ára sonurinn segir reyndar ennþá með aðdáunarsvip “mamma þú ert svooooo fín..” alveg sama hvað ég fer í, um að gera að njóta þess á meðan það stendur).

Ég synti og lá í heita pottinum þangað til ég var komin með rúsinuputta, það var algjör unaðar! Ég talaði fram á nótt við vinkonu mína um lífið og tilveruna, það var hreinn munaður. Hélt veislu þar sem við borðuðum ekta íslenskt lambalæri með skyrköku í eftirrétt – algjör unaðar. Aðra þar sem við pöntuðum pizzur og drukkum gott rauðvín með, ummmmm… gott, gott. Svaf fram að hádegi einn laugardagsmorgun og sofnaði aftur eftir hádegi, gerði svo akkúrat ekki neitt – mæli með því. Fór í vikunni og bauð skemmtilegum konum með mér á uppáhaldskaffihús þar sem fæst besta súkkulaðikaka bæjarins. Algjör munaður!

Labbaði eftir Ægisíðunni í brjáluðu veðri þar sem sjórinn öskraði að mér  – þvílík orka og algjörlega dásamlegt. Horfði á uppáhaldssjónvarps þáttinn minn, þessi norski sem lýkur í kvöld, það er munaður að hlakka til (ég er ekki enn farin að dónlóta – svo munaðurinn felst í að bíða og hlakka til í heila viku). Ég keypti mér fallegan kjól sem er algjörlega fabílös, það er unaður að vera í honum og bara horfa á hann í skápnum, munaður! Ég gef mér tíma til að labba eins oft og ég get heim með sex ára guttanum og nýt þess að svara spurningum um allt milli himins og jarðar, það er unaður.

Það er gott að setja sér meistaramánaðar markmið en það er líka bráðnauðsynlegt að njóta! Bara njóta! Setja sér markmið um að njóta og gera vel við sig í einn mánuð. Einu sinni var það unaðsvika hjá mér – þá viku sem ég á afmæli en núna er það mánuðurinn allur og svo verður það árið allt. Ég á enn eftir að leyfa mér töluverðan munað enda er mikið eftir af mánuðinum. Búin að skrá mig á námskeið, og í nudd og mun án efa finna eitthvað nýtt eftir því sem dagarnir fyllast af unaði. Það er svo unaðslegt að vera á lífi akkurat núna og þetta er svo dásamlegur tími til að leyfa sér allra handa munað.

Munaður og unaður, í dagsins önn

Skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.