Getur kona notað annarra konu föt?

Tapad-Fundid-bok_600Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands var að gefa út sína fyrstu skáldsögu, Tapað Fundið. Hér getur þú lesið fyrsta kaflann í bókinni.

1 kafli

Halla Bryndís horfði niður á gólfið. Yfir steingráan marmarann var búið að líma myndir af grænum grundum, frekar ósmekklegt. Hún leit á tölvuskjáina fyrir framan sig til að sjá á hvaða færibandi töskurnar úr Keflavíkurvélinni kæmu. Um leið og hún gekk hröðum skrefum að færibandinu fylgdist hún með hinum farþegunum skunda í sömu átt. Sumir með bros á vör og hlökkuðu augljóslega til þeirra ævintýra sem biðu þeirra að lokinni tollafgreiðslunni. Ung kona tók upp spegil og hafði sig til, sjálfsagt biði hennar elskhugi sem væri jafn spenntur og hún. Eða kannski bara pirraður eiginmaður með bílastæðismiða í annarri hendi og síma í hinni. Hún nam staðar við færibandið og sá að töskurnar voru ekki komnar. Hún reyndi að láta lítið fyrir sér fara, nennti ekki að lenda á spjalli við neinn. Hún varð vör við að einhver nálgaðist hana.

– Á hvaða hóteli ert þú? Þarna stóð Bjarni allt í einu, brosandi og öruggur með sjálfan sig eins og alltaf. Hann stóð þétt við hliðina á henni, greinilega búinn að staupa sig í vélinni. Bjarni hafði á sínum tíma verið með henni í lagadeildinni og var nú einn af heitustu lögfræðingum landsins.

– Ég er niðri í bæ, svaraði hún. Hún vissi hvað kæmi næst en hugsaði með sér að hún ætlaði ekki að hlusta á hann belgja sig út á leiðinni á hótelið. Hvað þá að hún hefði áhuga á að sitja með honum í kvöld og hlusta á frægðarsögur hans. Hún mundi allt of vel eftir kvöldinu sem hann var kosinn formaður í Lögmannafélaginu. Hann hafði horft á hana allt kvöldið og áður en hún hafði getað komið við vörnum hafði hann sest niður við hliðina á henni.

– Hver er nú með völdin? Bjarni hafði horft á hana eins og hann hefði verið kosinn forseti. Hún hafði skellihlegið og haldið að hann væri að grínast.

– Það vantar bara á þig einhverja borða, sagði hún og teygði sig í servíettu og braut hana saman og setti í vasa hans.

– Eigum við að fá okkur gott í kroppinn? Hann færði sig nær henni og kreisti á henni lærið. Halla Bryndís hafði horft á hann og fært sig fjær og sagt um leið að þar sem hann hefði völdin þá þyrfti hann að sinna öllum þegnum sínum. Síðan stóð hún upp, gekk hnarreist í burtu. Þær vinkonurnar voru mikið búnar að nota þennan frasa síðan: „Hver er nú með völdin?“ Hún brosti við tilhugsunina, en hann stóð enn þétt við hlið hennar með sitt sjálfsörugga, valdsmannslega fas. Hún vaknaði upp úr hugsunum sínum og reyndi að einbeita sér að manninum með valdið.

– Hvenær ætla þeir eiginlega að koma töskunum á bandið? Bjarni hélt áfram að mala á meðan hún leit örvæntingarfull í kringum sig.

– Þú getur fengið far með mér, sagði hann, það bíður eftir mér bíll og það er ekkert mál að skutla þér.

Hún hugsaði með sér að frekar færi hún með neðanjarðarlestinni en sagði upphátt að vinkona hennar ætlaði að sækja hana. Auðvitað var það ekki satt en það var einfaldlega óbærileg tilhugsun að sitja með Bjarna alla leiðina inn í miðborg London.

– Það er synd, sagði hann og horfði niður eftir líkama hennar. Á meðan hann talaði við brjóstin á henni hélt hún áfram að horfa á grænar grundirnar á marmaragólfinu.

– Eruð þið að hitta Deutsche Bank á morgun?

Áður en hún náði að svara hélt hann áfram: – Þeir eru svo helvíti stífir og erfiðir, ég gæti lumað á nokkrum góðum ráðum til að tækla þessa menn. Maður er búinn að taka nokkra fundina undanfarið. Hann brosti ánægður með sjálfan sig þar sem hann stóð í gráu Armani-jakkafötunum sínum og bleikri skyrtu sem strengdist töluvert um hann miðjan.

Hún heyrði sjálfa sig segja að það væri fallega gert af honum að bjóða henni ráð en því miður væri hún búin að ráðstafa kvöldinu. Hún velti fyrir sér hvernig hún gæti losnað við hann, var um það bil að gera sér upp klósettferð þegar færibandið hökti loks af stað og farþegahópurinn tók sér stöðu. Hún reyndi að koma auga á eigin tösku í sundurleitum farangrinum sem rann hjá; hljóðfæri, barnavagnar, kassar, bakpokar og ferðatöskur af öllum stærðum og gerðum. Hún kom fljótlega auga á töskuna sína nálgast og varpaði öndinni léttar; nú gat hún losnað úr návist Bjarna. Hún brosti til hans og hann lyfti augunum upp af brjóstunum á henni og sagði þýðum rómi: Sjáumst, sæta!

– Ertu með númerið hjá mér ef þú skyldir þurfa á því að halda, við gætum kannski fengið okkur einn kaldan? Röddin og svipurinn gáfu í skyn að tilboðið gæti líka innifalið einn heitan.

Hún sagði honum að hún færi aftur heim næsta kvöld (ásamt brjóstunum, hugsaði hún) og því yrði enginn tími til að hittast.

– Láttu þessa karla ekki fara neitt með þig, sagði hann og rétti henni nafnspjaldið sitt að skilnaði, svona ef ske kynni. Bjarni gafst aldrei upp.

Hún kippti töskunni af færibandinu, dauðfegin að komast í burtu, og gekk hratt í áttina að útganginum. Eins og venjulega fann hún fyrir stingandi einmanakennd þegar hún sá mannfjöldann sem beið spenntur fyrir framan útganginn. Margir biðu eftir ástvinum sínum. Tilhlökkun lýsti af andlitunum sem litu hratt fram hjá henni og í átt að dyrunum að baki henni. Þarna voru líka þreyttir leigubílstjórar sem héldu á spjaldi með nöfnum og pirrað fólk sem greinilega var með bílana sína á skammtímastæði. Halla Bryndís sá ungan mann í vínrauðum niðurþröngum buxum, hann var dökkhærður og dökkeygður, líklega frá Suður-Evrópu. Hann horfði á hana eitt augnablik og síðan hvörfluðu augun aftur að dyrunum. Hann hélt á blómvendi og blöðru og var með klút um hálsinn. Hún var viss um að þarna væri kominn ástmaður ungu konunnar sem hafði staðið við færibandið og verið að hafa sig til. Halla Bryndís fann fyrir öfundarsting yfir því sem þau áttu í vændum. Hún ímyndaði sér að hann færi með víkingastelpuna sína í lítið ástarhreiður niðri í Notting Hill þar sem þau myndu drekka súrt rauðvín og elskast fram í næstu viku þar til raunveruleikinn myndi banka upp á. Hún andvarpaði. Það var orðið ansi langt síðan hún hafði fundið fyrir losta og þrá. Lostinn hafði vikið fyrir löngu fyrir hversdagsleikanum, lífinu, reikningunum og barnauppeldinu.

Hún flýtti sér svo hún gæti sest inn í leigubílinn áður en Bjarni sæi að hún hefði verið að ljúga því að vinkona hennar biði eftir henni. Það lá við að hún tæki stökk yfir götuna að leigubílastæðinu, fegin að komast út undir bert loft. Úti var notalegt vorveður, biðröðin var stutt og hún skimaði óróleg í átt að útgöngudyrunum. Koma svo …, kerlingin á undan henni var með heila búslóð og það tók langan tíma að koma henni fyrir í bílnum. Rétt áður en hún steig inn í bílinn sá hún Bjarna þar sem hann gekk að einkabíl með manni sem hélt á farangrinum hans. Auðvitað ferðast hann ekki með leigubílum eins og sauðsvartur almúginn, sjálfur maðurinn með valdið, hugsaði hún.

– Covent Garden, sagði hún við bílstjórann. – Nafnið á hótelinu er King George. Loksins gat hún slappað af, hún hallaði sér aftur í sætinu og leit út um gluggann. Þetta yrði erfiður fundur á morgun. Slitanefndin hafði ákveðið með stuttum fyrirvara að hitta kröfuhafana eftir að upp komst um krosstengsl í lánalínunum. Hún neri augun, hún hefði átt að taka Pál með sér á fundinn, það borgaði sig alltaf að hafa endurskoðandann við hliðina á sér til að geta farið nákvæmlega í saumana á málunum. Hann hafði ekki komist með og borið fyrir sig að hann þyrfti að fara á stjórnarfund en hún vissi vel að ástæðan var sú að hann treysti sér ekki til að hitta þýsku hákarlana, sem höfðu næstum étið hann síðast. Hún stundi. Þú hefur ekki um neitt að velja, sagði hún við sjálfa sig, þú verður bara að standa þig.

Hún leit á klukkuna og sá að hún var næstum níu, líklega var rétt að hringja í krakkana og bjóða þeim góða nótt. Hún dró fram símann. Arnar svaraði: – Sæl, elskan, ertu lent? Hvar ertu? Áður en hún gat svarað, hélt hann áfram: – Gunna biður þig að kaupa handa sér eitthvert krem og Anton var að minnast á eitthvað líka.

Hann var löngu hættur að spyrja hvernig flugið hefði gengið þegar hún hringdi heim úr útlöndum. Hún kæmist nú ekki langt með þessar upplýsingar um það sem hún átti að kaupa í verslununum og spurði eftir börnunum.

– Þau eru ekki heima, Gunna fór eitthvað með vinkonum sínum og Toni er á æfingu.

Hún hafði í sjálfu sér ekkert um að tala við eiginmann sinn, það var langt síðan hún hætti að nenna að spjalla við hann um allt og ekkert í símann. Það varð næstum vandræðaleg þögn og hún heyrði að hann var að vinna í tölvunni. Hún sá hann fyrir sér hálfboginn við borðstofuborðið með andlitið ofan í skjánum. – Hvernig gekk hjá þér í dag? spurði hún án þess að búast við raunverulegu svari.

– Ekki nógu vel, svaraði hann stuttur í spuna. – Ég kemst aldrei yfir allt það sem ég þarf að gera.

Hún fann fyrir smá hnút í maganum. Eins og alltaf þegar hann var niðurdreginn, þá fannst henni að hún ætti að laga það. – Æ, svona getur það verið, vonandi verður dagurinn á morgun betri hjá þér. Ég verð líka komin heim fljótlega.

Hún kvaddi og sagðist hringja daginn eftir til að athuga hvað hún ætti að kaupa fyrir krakkana. Ég gæti alveg eins hringt og kynnt mig sem Innkaupastofnun ríkisins, hugsaði hún. Það eina sem krakkarnir höfðu að segja við hana þegar hún var á ferðalögum var hvað þau vildu að hún keypti. Þá mundu þau eftir henni. „Mamma peningatré“ – hún ætti kannski að setja það á nafnspjaldið sitt.

Hrikalega var hún þreytt. Hún fann gamalkunna verki fara um líkamann, seyðing í úlnliðunum og óþol í fótunum. Mjóbakið var orðið stirt af mikilli setu og vöðvaspennu. Hvenær varð ég svona? Þreytt miðaldra kona með verki um allan líkamann. Hún leit út um gluggann, það var ekki mikil umferð. Þau nálguðust London, keyrðu í kvöldrökkrinu fram hjá bílabúðum sem voru með nýjustu gersemarnar í gluggunum. Auglýsingaskiltin lofuðu betri bílum, meiri hraða, meiri spennu. Hún hvarf um stund inn í auglýsingaskiltin og sá sig fyrir sér með nýjustu undragræjurnar; kraftmikil, hröð og ósigrandi. Svo hristi hún af sér þessa óra og dró pappírsstafla upp úr handtöskunni sinni. Um leið og hún setti pappírana í kjöltu sér andvarpaði hún. Götuljósin urðu að strikum sem hún sá út undan sér þegar hún pírði augun til að lesa skjölin sem hvíldu í fangi hennar. Um leið og tölurnar hoppuðu um blaðið reyndi hún að einbeita sér en fann að það var til lítils, einbeitingin var ekki til staðar. Hún tékkaði á tölvupóstinum í símanum og svaraði því sem hún gat svarað. Þarna var póstur frá Bjarna, hann var ótrúlegur helvítis maðurinn: „Ef þér snýst hugur um einn kaldan í kvöld þá er ég á Hótel Belmont.“ Hana hryllti við þeirri tilhugsun að sitja með Bjarna og hlusta á hann blaðra um eigið ágæti á hótelbar og þurfa að verjast káfi hans og þukli. Þær vinkonurnar höfðu kallað hann „Bjarna þreifara“ sín á milli, hann var eins og kolkrabbi, með angana alls staðar úti, sérstaklega þegar hann fékk sér í glas. Eins og hún og vinkonur hennar höfðu margreynt. Hún eyddi skilaboðunum og sendi Páli beiðni um að senda sér nýjustu tölurnar.

Eins og alltaf þegar hún kom til London dáðist hún að þessari borg andstæðnanna; gömlum hverfum í bland við ný. Covent Garden skartaði glæsilegum, gömlum húsum og leikhúsum í bland við lokkandi veitingahús. Fátt sem minnti á að hverfið hefði eitt sinn verið eitt alræmdasta vændishverfi Evrópu þar sem draumar margra kvenna höfðu orðið að skelfilegri martröð.

– Við erum komin, tilkynnti leigubílstjórinn á bjagaðri ensku. Hún tók töskuna sína, borgaði og gekk inn á hótelið, fram hjá porternum sem vildi endilega taka töskuna hennar en hún var ekki í skapi til að láta fylgja sér upp á herbergi og þurfa að ákveða hvað væri hæfilegt tips. Anddyrið var gamaldags og kristalsljósakrónan varpaði dulúðlegum blæ. Hún var komin í annan heim, henni leið vel á þessu gamla hóteli, hafði verið hér nokkrum sinnum áður. Strákarnir sem voru með henni í slitastjórninni vildu búa á öðru hóteli þegar þau þurftu að funda í London – og það hentaði henni ágætlega. Þá gat hún enn betur notið þess að vera ein á þessu gamla notalega hóteli sem hafði yfir sér blæ liðinna tíma.

– Mrs. Antonsdóttir, velkomin. Herbergi 317. Ungi maðurinn í móttökunni brosti fallega til hennar. Maðurinn var eitthvað svo skrambi hamingjusamur að hún varð að reyna að brosa á móti. Hann reyndi að spjalla við hana en hún lét brosið duga. Hún fékk lyklakortið og steig upp í lyftuna, gott að komast frá þessari óbærilegu hamingju. Um leið og hún steig inn í herbergið sparkaði hún af sér skónum, lagði frá sér ferðatöskuna og handtöskuna og fleygði sér á rúmið. Þvílíkur unaður að komast úr háu hælunum og leggjast aðeins niður eftir ferðalagið. Herbergið var nokkuð stórt með gamaldags húsgögnum, þykku teppi á gólfinu og flauelsgardínum fyrir glugganum. Á stóra tvíbreiða rúminu var rósótt teppi. Hún hallaði sér aftur á þykka koddana sem lágu ofan á rósamynstrinu, þeir voru líka rósóttir, og sökk ofan í sæluna. Eftir dágóða stund stóð hún snöggt upp, sótti veskið sitt og náði í rauðvínsflöskuna sem hún hafði keypt í fríhöfninni. Hún opnaði flöskuna og hellti í belgmikið glasið sem stóð á borðinu. Vínið rann vel niður og hún fann áhrifin seytla um líkamann, verkirnir minnkuðu og hún slakaði á frá hnakka niður í tær. Djöfull var hún þreytt, endalaust og alltaf þreytt. Hún hellti sér í annað glas og drakk það hægt, óvön því að hafa ekkert fyrir stafni og lét hugann reika. Hún hugsaði heim. Þrátt fyrir að ferðalagið hefði tekið á þótti henni gott að vera ekki heima, kvöldin voru oft svo óbærilega erfið með sínum löngu þögnum, sérstaklega þegar krakkarnir voru ekki heima. Hún sá fyrir sér síðasta laugardagskvöld sem hafði verið fallegt vorkvöld en það eina sem þeim datt í hug að gera var að horfa á sjónvarpið. Hún hafði farið á undan í rúmið og ekki getað sofnað. Arnar hafði ekki komið upp í fyrr en undir morgun. Hún vissi ekki hvernig hann hafði eytt nóttinni en heyrði óminn af sjónvarpinu. Heimilisbragurinn var farinn að minna á rússneskt leikrit; ekkert talað fyrir hlé og það eina sem vantaði var almennileg áfengisdrykkja. Hún hristi höfuðið eins og til að hrista af sér þessar hugsanir. Eftir drykklanga stund stóð hún upp til að líta út um gluggann en um leið og hún gekk yfir gólfið hrasaði hún um skóna sem lágu á því miðju. Það helltist úr glasinu yfir hana alla þegar hún baðaði út handleggjunum til að ná aftur jafnvægi. Nýja ljósa Malene-Birger-dragtin og silkiskyrtan sem hún hafði keypt í stíl voru þaktar í rauðum flekkjum. Hún hafði einhvern veginn í ósköpunum náð að sturta öllu innihaldi glassins yfir sig.

– Ég trúi þessu ekki, sagði hún upphátt við sjálfa sig. Í skyndi reyndi hún að rifja upp hvaða föt hún hefði tekið með.

Henni létti þegar hún mundi eftir bláu dragtinni sem hún hafði sett í töskuna um morguninn en sú var heldur þröng. Hún hafði tekið hana með til vara, hana langaði ekki að sitja eins og rúllupylsa fyrir framan hákarlana, en hér var ekki um neitt að velja. Hún huggaði sig við að þeir væru yfirleitt ekki að horfa á hana, ekkert brjóstagláp þar eins og hjá Bjarna. Hún ákvað að fara í sturtu áður en hún klæddi sig í náttfötin, fór úr dragtinni sem angaði af rauðvíni, teygði sig í hótelsímann og pantaði mat upp á herbergi. Nennti ekki að fara út; hún var orðin nokkuð heimavön þarna og vissi að klúbbsamlokan sem hóteleldhúsið bauð upp á var sæmileg og hún gæti dundað sér við að klára flöskuna með matnum. Heit bunan úr sturtuhausnum róaði hana aðeins, hún lokaði augunum og stóð kyrr dágóða stund. Hún lét vatnsbununa leika um sig alla og hreinsa daginn af henni. Þó að lyktin af vatninu í London væri henni ekki að skapi náði vatnið þó að hressa hana við. Hún greip mjúkt handklæðið til að þurrka sér og varð um leið litið á sjálfa sig í stórum baðherbergisspeglinum. Hún lét handklæðið falla á gólfið og horfði á sig gagnrýnum augum. Ógeðslegt, ferlega ógeðslegt, hugsaði hún þegar hún leit á magann á sér. Þótt hún væri í ræktinni fjórum til fimm sinnum í viku var maginn ekki sléttur. Ávöl bunga neðan við naflann hafði lengi verið endalaus uppspretta sjálfshaturs hjá henni. Til að gera illt verra voru brjóstin nú farin að lúta lögmálum þyngdaraflsins og lafa meira en góðu hófi gegndi.

Hún andvarpaði, gekk nakin inn í herbergið og opnaði ferðatöskuna til að ná sér í krem. Þegar hún hafði lyft töskulokinu tók hún ósjálfrátt skref aftur á bak og greip um munninn á sér, eins og til að kæfa óp. Við henni blasti litríkhrúga af fatnaði. Hún starði ofan í töskuna þar sem öllu ægði saman. Fatnaðurinn vall upp úr töskunni og skór og annað dót sem hún kannaðist ekki við. Hún reyndi að átta sig á því hvað hafði gerst. Kvöldið hafði byrjað illa en var nú orðið að stórslysi. Hún hélt áfram að stara ofan í töskuna eins og hún byggist við að þessi tætingur sem þarna lá myndi á hverri stundu breytast í samanbrotna dragt, silkináttkjól og snyrtibuddu. Skyndilega var bankað á dyrnar – maturinn! Og hún allsnakin! Hún horfði í kringum sig en sá engan annan leik í stöðunni en að vefja um sig handklæðinu og fara þannig til dyra. Þjónninn brosti, kom inn með bakkann og virtist ekkert vera að flýta sér út aftur. Hún horfði kuldalega á hann þar sem hann var að vandræðast við dyrnar þangað til hann hafði rænu á því að láta sig hverfa. Þá áttaði hún sig á því að hún hafði ekki gefið honum tips. Fokk, fokk, helvítis fokking, fokk! Hún gekk yfir að töskunni og grandskoðaði hana og sá að hún var nákvæmlega eins og hennar eigin. Svört Samsonite með harðri skel og lás sem hún notaði aldrei og greinilega heldur ekki eigandi þessarar tösku. Hvernig gat þetta eiginlega hafa gerst? Hún tók upp símann og hringdi á flugvöllinn og fann hvernig pirringurinn magnaðist á meðan hún beið eftir því að það yrði svarað. Þegar starfsmaður í Lost and Found tók upp símann átti hún erfitt með að hemja sig og heyrði að röddin titraði af reiði: – Það hefur einhver tekið töskuna mína! Þetta er ekki taskan mín!

– Hvert er flugnúmerið? Skildi ég þig rétt að þú sért ekki með töskuna? svaraði hann þolinmóður, greinilega vanur því að fá yfir sig skammir.

– Nei, ég er með alveg eins tösku, en ekki mína, sagði hún skrækróma. Það var langt síðan hún hafði misst svona stjórn á skapi sínu. Hið fína, kalda og fágaða yfirborð var horfið eins og hendi væri veifað og í staðinn stóð hún skjálfandi af reiði á evuklæðunum einum saman, eldrauð í framan, með rauða flekki um hálsinn og herti takið um símtólið eins og hún ætlaði að kyrkja það.

– Tókst þú þá aðra tösku? spurði maðurinn.
– Tók ég hana? Já, auðvitað tók ég hana!
– Hvaða nafn er á töskunni sem þú ert með? spurði hann. Hún leitaði að merkingum á töskunni en fann ekkert. –

Það er ekkert nafn á henni, sagði hún. – Og ég þarf að fá mína eins og skot!

Hann bað hana um lýsingu á töskunni.

– Þetta er svona venjuleg Samsonite-taska, svört með harðri skel, fjórum hjólum og handfangi.

Þolinmóði þjónustufulltrúinn sagði henni að enginn hefði tilkynnt um tapaða eða fundna tösku úr þessu flugi, því miður, og að hún yrði að hafa samband aftur daginn eftir.

– Á morgun! gargaði hún, ég þarf að fara á fund klukkan 7:30 í fyrramálið og ég hef engin föt að fara í!

– Mér þykir þetta leitt, svaraði maðurinn kurteislega og kvaddi hana.

Hún settist á rúmið og fól andlitið í höndum sér. Hvað átti hún að gera? Á gólfinu lá rauðvínslegin dragt sem hún gat ekki hugsað sér að fara í, hún liti út eins og hún hefði orðið fyrir slysi ef hún mætti í henni á fundinn. Kannski væri hægt að redda hreinsun? Hún hringdi niður í móttöku og hamingjusami maðurinn svaraði strax.

– Þetta er frú Antonsdóttir á herbergi 317. Ég hellti niður í dragtina mína og tók ranga ferðatösku. Eruð þið með hraðhreinsun?

Hann hváði: – Ertu með ranga ferðatösku? Hún hafði enga þolinmæði fyrir málalengingar og endurtók spurninguna.

– En leiðinlegt að heyra þetta, frú mín góð. Því miður, við erum aðeins með hreinsun eftir hádegi á virkum dögum. Hún sá hann fyrir sér skælbrosandi og langaði mest að fara niður og berja hann. En muldraði eitthvað í staðinn sem átti að heita svar og kvaddi. Halla Bryndís lét sig falla niður á rúmið og sá í fyrsta sinn eftir því að hafa valið eitt af þessum gömlu hótelum. Ef hún væri á hótelinu sem Bjarni valdi hefði þetta ekki verið neitt mál. Þar væri örugglega þvottaþjónusta 24/7! Það flögraði að henni að hringja í Bjarna og biðja hann um að redda sér en snerist strax hugur. Það væri eins og að ganga í gin ljónsins – eða kolkrabbans, réttara sagt.

Hún leit aftur á ferðatöskuna, hún var nákvæmlega eins og hennar en ekki rispuð á sama hátt. Það sá hún nú. Hún kannaði innihaldið, þvílík óreiða! Litrík pils og blússur lágu í einni bendu, bleikir og appelsínugulir bolir með broskörlum. „Spread happiness“ stóð á einum bolnum. Hvers konar manneskja á þetta drasl eiginlega? hugsaði hún með sér. Rauðum náttkjól hafði verið kuðlað saman og lá í einu horninu í töskunni. Hún tók hann upp og horfði um stund með hryllingi á stuttan, þvældan náttkjólinn sem hefði alveg eins getað verið af unglingsstúlku á mótþróaskeiði, en sagði svo upphátt við sjálfa sig: – Ég á engra kosta völ, ekki ætla ég að vera allsber í nótt. Hana hryllti við að klæða sig í þennan ömurlega náttkjól en lét sig samt hafa það. Það kom henni þægilega á óvart að náttkjóllinn passaði eins og hún hefði sofið í honum oft áður. Halla Bryndís horfði góða stund ofaní töskuna og tók svo upp litríka Marimekko-snyrtibuddu. Hárburstinn var bleikur með teiknuðu andliti á bakhliðinni og gulum tindum. Hún gat ekki annað en skellihlegið. Það hlýtur að vera unglingsstúlka sem á þetta, hugsaði hún með sér en tók svo eftir lítilli krukku með næturkremi – gegn hrukkum. Varla sæi unglingsstúlka ástæðu til að bera á sig hrukkukrem nema til að gulltryggja sig gegn Elli kerlingu. Í snyrtibuddunni voru líka varalitir og augnskuggar, maskarar og kinnalitir, allt þetta venjulega, en ekkert sem hún gæti notað því allt voru þetta hræðilegir litir og pössuðu henni engan veginn. Eldrauðir varalitir, fjólubláir og gylltir augnskuggar og alls konar penslar og púður sem hún hafði aldrei séð fyrr. – Þetta er nú meiri vitleysan, sagði hún upphátt og stundi. Hún smurði næturkreminu á sig, það var bara þokkaleg lykt af þessu sulli. Krukkan var merkt einhverju lífrænt vottuðu fyrirtæki, gat það nú verið hallærislegra! Hún hélt áfram að skoða hvað taskan hefði að geyma, þarna var ekkert sem hún myndi nokkru sinni fara í. Allar flíkurnar sem hún skoðaði voru í æpandi litum; hárauðar, bleikar, bláar og fjólubláar. Þvílíkt drasl, hugsaði hún en tók samt sem áður eftir því að flíkurnar voru í hennar stærð, númer 42. Meira að segja nærfötin voru svo litrík að hún fékk gæsahúð. Hún rak augun í þykka stílabók sem smeygt hafði verið inn á milli fatanna. Á forsíðu bókarinnar hafði verið skrifað stórum stöfum: „Lát hjartað ráða för.“

Halla Bryndís hneig niður á rúmið í rauða náttkjólnum og neri á sér gagnaugun, hún var að fá mígrenikast. Hún sá að síminn hennar lá á náttborðinu og teygði sig eftir honum. Klukkan var orðin ellefu og hún ekki farin að borða ennþá. Hún fann hvernig maginn mótmælti þessari vanrækslu, gekk að borðinu og lyfti lokinu af klúbbsamlokunni sem hún hafði pantað sér. Líflausar, kaldar franskar kartöflur voru ekki beinlínis freistandi lengur en samlokan, sem hafði verið skipt í fjóra bita, virtist vera í lagi. Hún tók upp samlokuna og sökkti tönnunum í safaríkt innihaldið. Ummmmm … stökkt beikon með tómötum og káli, majónes og sinnep fékk hana eitt augnablik til að gleyma þessum ömurlegu aðstæðum. Svo helltist veruleikinn yfir hana aftur, hún náði í sódavatnsflösku úr míníbarnum, settist á rúmið og reyndi að átta sig á stöðunni.

Bækurnar mínar

Tapað-fundið 1. kaflinn úr bókinni

Skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.