Að baka vandræði.

Um þessar mundir eru flestir komnir á kaf í jólaundirbúning og hluti af honum er að baka kökur, laufabrauð, hveitikökur og annað góðgæti. Fólk hittist og bakar saman og nýtur samvista við hvort annað í sínum jólahefðum. Ég legg til að við bökum líka vandræði. Það er algjörlega vanmetið að baka vandræði stöku sinnum. Við erum oft svo hrædd við að baka vandræði að við segjum ekki skoðun okkar eða förum fjallabaksleiðir í stað þess að fara stystu leið til að komast hjá því að baka vandræði. Það væru mun fleiri fyrirtæki á beinu brautinni ef fólk hefði þorað að baka vandræði. Enron var upplýst af því að tvær konur þorðu að baka vandræði. Það væru mun fleiri fjölskyldur í nánari samskiptum ef fleiri þorðu að baka vandræði. Við værum fleiri að sinna köllun okkar ef við hefðum hugrekki til að baka vandræði í lífi okkar.

þegar amma mín var aðeins yngri, hún er núna 88.ára, þá var hún í Botsja – svona kúluíþróttakappleik sem margir eldri borgarar stunda. Það voru eingöngu konur með henni og þar sem amma er mikil keppniskona þá vildi hún að sitt lið stæði sig vel. „þú verður að glenna þig betur“ – kallaði hún í systur sína sem var í liðinu, „það er ekki eins og við höfum oft tækifæri til þess“. Ég hef oft hlegið að þessari sögu af ömmu sem bakaði og bakar enn oft vandræði með því að segja hluti sem eru kannski ekki alltaf viðeigandi eins og „ég sá svo svakaleg feita konu, hún var meira að segja feitari en þú!“ Þessi einstaki hæfileiki ömmu til að baka vandræði með athugasemdum sínum getur gert mann bjálaðan en oftar en ekki býr það til tækifæri til að skella vel og vandlega uppúr.

Það er vel hægt að baka vandræði á aðventuni með því að gera nákvæmlega það sem hugurinn stendur til. Hvað er það sem þig langar til að gera en vilt ekki baka nein vandræði með? Kannski bara kaupa smákökur í stað þess að baka. Eða taka frí í nokkra daga eða drekka bara kakó en ekki kaffi. Kannski hlusta á þessa innri rödd sem segir þér hvað þú vilt – bara fyrir sjálfan þig og gera það! Baka vandræði, svo ég vísi í heilagann Frans frá Assisi: „Byrjaðu á að gera það sem er nauðsynlegt. Síðan skaltu gera það sem er mögulegt og allt í einu gerir þú það sem er ómögulegt“. 

Birtist fyrst á blog.is. 29.11.11