Að falla um sjálfa sig.

Í ljósi þess að ég er að skrifa nýja bók ákvað ég í morgun að setja pistlana mína inn á síðuna mína, areliaeydis.is. Mér fannst þetta vera létt verk og löðurmannlegt, vel til þess fallið að smyrja mig af stað inn í skrifin. Ég gerði mér enga grein fyrir verkefninu. Pistlarnir eru um tvö hundruð talsins og spanna tímabilið 2011-2024.

Þetta er áhugaverð mannfræði stúdía að lesa það sem fangar mig á hverjum tíma. Þegar ég byrjaði að skrifa var ég gift kona með tvö ung börn og ungling. Þessi kona bjó í úthverfi og sinnti hugðarefnum á borð við barnauppeldi, bókaútgáfu, ráðgjöf og kenndi í háskóla. Nokkrum árum síðar skildi sama konan og varð einstæð móðir, nýflutt frá úthverfinu og komin í vesturbæinn. Áhugamálin urðu önnur og pistlarnir endurspegla það. Þetta er töluverður texti og það var áhugavert að gægjast inn í mitt eigið líf. Ég tók eftir því við lesturinn að sjálfið, líkt og annað í lífinu, tekur sífeldum breytingum. Því er mikilvægt að stoppa af og til, líta um öxl og fá sér sopa úr viskubrunninum. Enda er margt hægt að læra af tímaskeiðunum í lífi okkar. Ég er ánægð með dagsverkið. Þó ég hafi ekki komist í að skrifa í nýju bókinni… það er líka svo heitt í dag!

Ég mun setja inn nýja pistla á síðuna mína areliaeydis.is. Pistlarnir munu væntanlega fjalla um hugðarefni síðmiðaldra konunnar. Endilega grúskaðu í gömlu pistlunum og skráðu þig á póstlistann minn. Margt spennandi er framundan. Næsti pistill mun væntanlega heita: „Frelsið er yndislegt ég geri það sem ég vil…“