Allt mögulegt!

Breytingar eru mér hjartfolgnar, bæði af því að ég hef stúderað breytingastjórnun og kennt það fag en líka af því að ég persónulega farið í gegnum margar breytingar. Það er svo skrýtið að við ætlum að lífið sé og verði alltaf eins en svo skellur á enn ein breytingaraldann. Einu sinni enn! Stundum er eins og maður ætli aldrei að komast upp á yfirborðið aftur. Fyrirtæki sem árið 2008 riðuðu til falls, eða féllu, eru nú sum hver að komast upp úr öldudalnum.

Ég hef verið svo heppin undanfarið að tala á mörgum ráðstefnum og innan fyrirtækja líka. Þegar ég spyr hvað undanfarin ár hafi kennt fólki svarar það oftast: „Við höfum þurft að endurskipuleggja allt, snúa öllum krónum og finna ný verkefni og vettvang.“ Sem sagt, neyðin kennir nakri konu að spinna. Fólk segir líka að það kunni betur að meta það sem það hefur.

Ég var að kenna á alþjóðlegri ráðstefnu í síðustu viku þar sem ég talaði um mikilvægar tvær spurningar til reglulegrar sjálfskoðunar. Þæru eru: „Hvað viltu? Og hvernig veistu hvenær þú ert búin að fá það sem þú vilt?“ Ein kona rétti strax upp hendi og sagðist hafa eytt síðustu sex árum í að svara þessum spurningum fyrir sjálfa sig. Hennar niðurstaða væri að hún vildi fjölbreytni og að hún vissi að hún lifði fjölbreyttu lífi með því að gera mismunandi hluti. Mér fannst þetta gott svar.

Þegar breytingaldann skellur á, hvort sem er faglega eða persónulega, er gott að minna sig á það sem Angela Merkel hafði að segja – að maður ættii að vera í góðu formi þegar að því kæmi. Því þá er allt mögulegt (enska: You have to be fully fit at the right time. Then anything is possible).

Birtist fyrst á blog.is, 02.10.12