Ástríða: Lykill að farsæld.

Eftir að bókin mín: Á réttri hillu, kom út í fyrra þá hef ég verið svo heppin að fara víða og ræða við fólk um köllun í starfi, ástríðu og styrkleika þess. Flestir hafa ekki hugsað mikið um þetta umræðuefni áður. Sumir jafnvel þverneita að þeir eigi einhverja ástríðu. Týpíst svar er: „Ég hef nú ekki litið svo á að þrátt fyrir að ég elski að elda og sé alltaf að skoða uppskriftir og hugsi stöðugt um mat þá sé það ástríða mín.“

Við eigum öll okkar eigin ástríðu sem er eins og fingrafar okkar einstakt fyrir okkur sjálf. Okkur ber að rækta þessa ástríðu og ýta undir hana og leyfa okkur að láta hana vaxa og dafna. Margir hafa lent í því að „passa“ ekki inn í skólakerfið og finnast þeir þess vegna vera „lúserar“ eins og einn maður sagði við mig um daginn. Skólakerfið er þannig uppbyggt að það vill gera alla eins, allir eiga að vera þríhyrningar sem passa ofan í kassa en fullt af fólki eru ferhyrningar sem passa bara ekki. Sama hvað reynt er að þrýsta þeim ofan í! Við sjálf verðum því að finna styrkleikum okkar og ástríðu farveg. þessi sami maður sem hafði upplifað sig sem „lúser“ í skóla hefur mikla ástríðu fyrir að spila á gítarinn sinn og lesa bókmenntir. Hann hefur ástríðu fyrir því að byggja hús, enda hefur hann lengst af starfað sem smiður, og hann nýtur þess að ferðast.

Leggðu það á þig að rækta ástríðu þína sem er eins og hver annar líkamsvöðvi sem þarf að hreyfa til að viðhalda styrk og teygjanleika. Við eigum ekki aðeins eina ástríðu lífið á enda heldur margar sem oft tengjast en stundum ekki.  Láttu það eftir þér og þú munt uppskera bæði gleði og fleiri tækifæri.

Birtist fyrst á blog.is, 15.03.12