Betri eða bitrari…..!

Á seinna kynþroskaskeiði okkar, sem er á mðjum aldri, þá verðum við annað hvort betri eða bitrari. Ég er viss um að þið þekkið einhverja sem hafa orðið bitrari með aldrinum. Draumar sem ekki rættust, vonir og væntingar sem fengu ekki farveg, geta orðið til þess að fólk verður stöðugt beiskara og bitrara (lesist annað fólk – s.s. ekki við…). Þeir sem nota tækifæri þessa seinna kynþroskaskeiðs til að hlusta eftir því sem unglingurinn innra með þeim er að hvísla í eyru þeirra hafa tækifæri til að verða betri.

Stundum er þetta tímabil kallað grái fiðringurinn og mikið grín er gert að karlmönnum sérstaklega sem kaupa sér mótorhjól og þeysast þvert um Ameríku, eða kaupa sportbílinn sem þá dreymdi alltaf um, já eða yngja upp… En mér finnst að það eigi ekki að gera grín að þeim sem láta drauma sína rætast. Karlmenn sem hafa eytt síðustu áratugum í að ala önn fyrir fjölskyldu sinni eru loksins komnir á þann stað í lífinu að geta leyft sér það sem þá dreymdi um sem strákar. Konur sem eru komnar á miðjan aldur þyrstir oftast í ferðalög, frelsi, nám og gleði. Allt sem unglingsstúlkuna dreymdi um … að bjarga heiminum með því að fara til Afríku og vinna meðal munaðarlausra, að læra spænsku eða að fara í skóla, í kór eða bara keyra ein hringinn í kringum landið.

Núna er tími töfra að ganga í garð þar sem álfar og tröll hafa gaman af því að kynda undir drauma og þrár, sumarsólstöður eru samkvæmt þjóðtrú töfrandi tími. Það er gott að nýta tímann í að gera sér óskaspjald eða alla vega láta sig dreyma um hvað það er sem þú vilt nú láta rætast í lífi þínu. Það er nefnilega ákvörðun að verða betri en ekki bitrari! Betri…. takk. Eftir að hafa skoðað líf margra afreksmanna og kvenna hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem verða betri nýta seinni huta lífsins í að verða betri og enn betri. Meira um það seinna. Eigið töfrandi viku.

Birtist fyrst á blog.is, 19.06.12