Ég las í vikunni um leikkonu sem er 25 ára sem hefur farið í svo margar lýtaaðgerðir að hún þekkist varla lengur. Hún er í hópi „fegurstu“ kvenna í heimi, samkvæmt staðlinum sem nú er í gangi. Hún sjálf er ekki sammála því og segist þjást af óöryggi. Það er nefnilega svo að það er alltaf hægt að verða ríkari, alltaf hægt að verða fegurri, alltaf hægt að breyta og bæta. Fullkomnun er erfið vegferð en það má alltaf reyna.
Hin skondna staðreynd er hins vegar sú að okkur, manneskjunum, líkar betur við þá sem ekki eru fullkomnir. Þeir leiðtogar sem sýna veikleika sína, ná betri árangri en aðrir, í að ná trausti fólks. Ástæðan er einföld: Við treystum ekki þeim sem okkur finnst vera of fullkomnir vegna þess að við sjáum ekki fyrir okkur að þeir geti sett sig í spor okkar sem ekki erum eins fögur, fræg, rík eða fullkomin.
Þrátt fyrir allt og alla sem reyna að sannfæra okkur um annað, og þar með talið okkar innra tal, þá veitir það okkur ekki meiri lífsfyllingu eða árangur að vera fullkomin. Hins vegar ef við reynum að vera enn meira sönn, enn meira við sjálf, einlægari, hjartahlýrri og auðmýkri þá eru einhverjar líkur á að fullkomnum skipti ekki máli lengur. Ég þakka bara fyrir að vera svona“ natúral bjútí“ svo ég þurfi ekki að leggjast undir hnífinn eins og leikkonan.
Birtist fyrst á blog.is, 03.04.12