Ég fann fyrir miklum sálarfriði í morgun þegar yngsta kynslóðin var komin í skóla og leikskóla. Eftir ferðalög sumarsins tók ég upp úr töskum í þögn! Þögn! .. það hefur ekki ríkt þögn í kringum mig síðan í byrjun júní. Ég fann hvernig ég gat allt í einu hugsað eina hugsun til enda – alveg til enda án þess að gleyma neinu. Ég gat sinnt tölvupósti, sett í vél og unnið óáreitt um tíma. Mér varð hugsað til Mjallhvítar sem svaf í hundrað ár. Hvaða móðir sem á ung börn hefur ekki fantaserað um að verða Mjallhvít (og þá meina ég ekki vegna búninganna í nýjustu myndinni sem ég sá í einhverri flugferðinni…). Svo er verið að gefa út bók um kynlífsfantaseríingar kvenna á Íslandi. Hvernig væri að gefa út bók fyrir mæður ungra barna, eftir sumarfrí, með titlinum: Fantasíur mæðra um óslitin svefn og undirtitill: Hvernig maður kemst einn á klósettið! Þær leiðir sem mætti benda á í bókinni væru: Fangelsisvist (bæði óslitin svefn og ein á klósett), sjúkrahúsdvöl, maður er nú ekkert að biðja um einhvert stórkostlegt Spa. Eftir ferðalög og námskeið sumarsins er hvort sem er allur peningur farin úr pyngjunni.
Starfsfólk leikskóla og skóla eru upphaldsfólkið mitt núna. Þær mættu okkur með bros á vör og sögðust hafa saknað barnanna sem gerði okkur náttúrulega ægilega stolt. Yngri börnin skottuðust inn og ég finn hvernig ég hreiðra mig um í rútínunni eins og malandi köttur. Haustið er minn tími! Þá finnur maður hvað reglan heldur vel utan um lífið. Vorið er líka yndislegt því maður er orðin svo þreyttur á rútínunni og langar svo að leika sér eins og kú sem sleppt hefur verið út eftir langann vetur. Andstæðurnar eru málið og óslitin svefn!
Birtist fyrst á blog.is, 29.08.12