Fimm atriði sem þú ert þakklát/ur fyrir.

Helstu trúarbrögð heimsins, heimspekingar og fræðimenn á sviði jákvæði- og hamingjufræða hafa sýnt fram á mikilvægi þess að vera þakklátur. Ömmur heimsins hafa því, enn og aftur, sannað sig með því að leggja áherslu á að kenna barnabörnum þakklæti.

Ég hef unnið með kenningar um jákvæðni og hamingju í yfir áratug. Skrifað bækur, kennt og verið með fjölda fyrirlestra um þetta efni. Samt sem áður gleymi ég mér og er oft algjörlega ómeðvituð um hvað ég hef það gott.

Í þeirri bók sem ég nú vinn að fjalla ég um vana og vanabundna hegðun. Þegar ég fór að kynna mér þetta efni síðasta haust sá ég fljótt að það væri sniðugt að gera þakklæti að vana. Í þeim tilgangi að auka jákvæðni og hamingju mína. Ég setti því nýjan vana eða reglu af stað á heimilinu: Þegar við borðum kvöldmat, sem við gerum saman á hverjum degi, þá segjum við hvert og eitt frá fimm atriðum sem við erum þakklát fyrir. þetta hefur mælst vel fyrir og það er ótrúlegt hvað fjögurra ára piltur er djúpur í sínum þankagangi, „ég er þakklátur fyrir mömmu og pabba og afa og ömmur mínar og sveitina og ferðalagið og vini mína.“ Stundum segist hann vera þakklátur fyrir systkini sín og heimili og stundum vill brenna við að það sé eitthvað sem er efst á baugi þá stundina „þakklátur fyrir dráttavélina sem ég sá, þakklátur fyrir að ég lagaði til í herberginu.“ Átta ára skvísan segist oftast vera þakklát fyrir „Mosa, köttinn, mömmu og pabba og fjölskylduna og systkini, skólann minn og kennarann. ég er þakklát fyrir að ég var ekki óþekk í skólanum o.fl.“ Stundum ef þau hafa rifist þá taka þau fram að þau séu ekki þakklát fyrir hvort annað. Eitt kvöldið þegar mikið var rifist við matarborðið og átti sú stutta eitthvað erfitt með að sofna. Loks kom hún æðandi fram og sagði „ok, mamma ég er þakklát fyrir að eiga hann fyrir bróður þó að hann sé stundum óþolandi!“.

Í sumarfríinu datt þessi vani stundum upp fyrir því við borðuðum iðulega með öðrum og stundum var talað annað tungumál við mataborðið. Því hefur brunnið við núna að við gleymum okkur. Þá minna börnin mig á þegar ég á síst von á. Ég er kannski að flýta mér að setja matinn á diskinn eða hlusta á kvöldfréttir eða hugsa um eitthvað allt annað. „Heyrðu, mamma eigum við ekki eftir að segja af hverju við erum glöð?“. Þá munum við eftir þessum góða vana.

Núna langar mig að búa til fleiri þakklætisvana. Til dæmis þegar ég opna hurðina heima hjá mér að minna mig á að vera þakklát fyrir heimili mitt. þegar ég sest niður við skrifborðið mitt að vera þakklát fyrir vinnuna mína og verkefni. þegar ég tannbusta mig að minna mig á að vera þakklát fyrir heilbrigði mitt, þegar ég sofna að vera þakklát fyrir fólkið mitt.

Ég hvet þig til að búa til þakklætisvana í lífi þínu og finna hvernig maður lærir að njóta betur hins hversdagslega – láta dagana skipta máli.

Birtist fyrst á blog.is, 04.09.12