Framtíðarvinnumarkaðurinn – verður þú með?

í bók Michio Kaku, sem er eðlisfræðingur, fjallar hann um hvernig við munum lifa lífinu árið 2100. Hann spáir því að tölvur, eins og við þekkjum þær munu hverfa, við munum ávallt vera nettengd í gegnum augnlinsur og úrin okkar. Ekki nóg með það við munum eiga samskipti við netið og hluti með hugsunum okkar. Róbótar munu taka við skipunum í gegnum hugsanir og þar með erum við næstum komin með guðlegt vald. Við munum ferðast á flugbílum í loftinu, geta farið með lyftu út í geiminn og orkuþörf okkar verður svalað frá stjörnunum. Við munum skapa fullkomna líkama í gegnum háþróaða líftækni og við munum skapa lífverur sem aldrei hafa gengið á jörðinni áður.

Samkvæmt Kaku og fleirum erum við á leiðinni á næsta stig í þróunarsögu mannkynsins. Þetta hefur að sjálfsögðu bæði kosti og galla.

Framtíðarfræðingar eru heillandi fræðimenn sem nýta sérþekkingu sína til að sjá fyrir þróun, bæði í tæknilegum og eðlisfræðilegum skilningi og um leið reyna þeir að sjá fyrir um hvernig við mennirnir munum haga okkur. Hvaða þarfir við munum hafa eftir 50 ár eða 100 ár? Ég var að koma frá New York og á margan hátt má segja að þegar maður labbar á Manhattan meðal skýjaklljúfanna í mannmergðinni líði manni eins og maður sé í vísindaskáldskap. Það eru allir í símanum – þá meina ég allir.. það eru allir talandi í símann eða að skoða eitthvað í símanum. Flestir eru einir með símanum og mat í hönd. Nýjustu íbúðir á Manhattan eru ekki með eldhúsum því fólk er hætt að elda. Mínar heittelskuðu bókabúðir eru orðnar færri og það sem mátti fara; Macdonalds finnst varla á Manhattan lengur en í staðinn úir og grúir af heilsubitastöðum.

Í öllum þessum breytingum spyr maður sig; en hvaða færni þarf til að lifa af á framtíðarvinnumarkaðnum? Svarið er einfalt, sköpunargleði, upplýsingalæsi, hæfni í mannlegum samskiptum og „common sense“ sem sagt það sem róbótar geta ekki gert.

Birtist fyrst á blog.is, 25.04.12