Það er stórhættulegt að skrifa pistla! Ég hef rekið mig á að það sem ég skrifa um, hverju sinni, hefur tilhneigingu til að poppa upp í lífi mínu þá vikuna. Í síðustu viku skrifaði ég um að vera miðaldra og viti menn áður en ég vissi af var ég orðin galla – og gallblöðrulaus. Ég fékk, sem sagt, gallsteinakast en það er þegar gallsteinar eru komnir í gallblöðruna, eins og hjá um 40% kvenna yfir fertugt. Fór á bráðdeild, sjúkrabíl, aðgerð og allt og allt. Var orðin „eign ríkisþvottahúsins“ áður en ég vissi af mér. Það er alveg heill heimur út af fyrir sig að vera á spítala. Vakin klukkan sex að morgni og konan sem mældi í mér hitastig, blóðþrýsting og allt það sagði að ég væri með „fínar tölur“, ég var mjög stolt. Rétt áður en ég fór inn á skurðarborðið kom læknir í grænum skrúða með grænan hatt og spurði „er þetta…. svo kom eitthvert latneskt heiti..“ og benti á mig. „Nei, þetta er gallblaðra“, svaraði hjúkrunarfræðingur róleg. Eina sem ég „gallblaðran“ sagði var, „ég ætla að biðja þig að kljúfa mig ekki í herðar niður eða taka af mér fótinn..“. All gékk vel og eftir að ég var komin aftur á minn stað komu krakkarnir mínir að kíkja á mömmu sína, að sjálfsögðu með blóm úr garðinum. Þegar sjúkraliðinn, yndisleg kona, var að taka til eftir þau tiltók hún hvað þau væri yndisleg við ÖMMU sína að koma með blóm………… hún var heppin að ég var með allskonar í æð!
Þannig að nú er ég orðin gallalaus og mun fjalla um gallalaust heilbrigði svo að þessa vikuna uppskeri ég ekkert nema heilbrigði og ungræðishátt. Gallalaust heilbrigði er það sem við gerum ráð fyrir og veltum ekkert sérstaklega fyrir okkur af því ekkert amar að þá stundina. Gallalaust heilbrigði er að finna ekki til og geta hreyft sig án vandamála, að geta dansað og hlegið og verið þekkt með nafni en ekki sem einkenni :-). Gallalaust heilbrigði er að geta borðað það sem manni langar í og verða ekki illt af. Gallaust heilbrigði er að vera nokkuð bjartsýn og vongóð um að lífið færi manni gjafir og tækifæri. Gallalaust heilbrigið er að skapa tækifæri úr vonbrigðum og að finna leiðir til að opna nýjar dyr þegar einar lokast. Gallalaust heilbrigið er að kunna að meta það sem maður hefur en vera óhræddur við að sækjast eftir nýjum draumum. Gallaust heilbrigið er að finna sér leiðir til að standa með sjálfum sér eins og fjögurra ára sonur minn syngur allann daginn núna. „Stattu upp fyrir sjálfum mér…“!
Nú er ég orðin galla- (og gallblöðrulaus) og finn að lífið verður gallalausara eftir því sem tíminn líður. Njóttu hins gallalausa sumars.
Birtist fyrst á blog.is, 12.06.12