Hesturinn ógurlegi!

Ég man ennþá hvað ég skammaðist mín mikið að komast ekki yfir hestinn í leikfiminni í gamla daga. Íþróttakennarinn raðaði okkur upp í röð og é fann hverngi hjartslátturinn magnaðist innra með mér eftir því sem hver íþróttaálfurinn hoppaði léttilega yfir. Þegar svo loks kom að mér í röðinni var ég orðin sannfærð um að ég kæmist aldrei yfir og auðvitað lenti ég svo flöt á bevítans hestinum en aldrei yfir hann. Þetta olli mér mikilli sálrænni baráttu og ævilangri (ó)meðvitaðri ótta í leikfimisölum sem nú heita eitthvað annað.

Ég hef s.s. haft þær hugmyndir um sjálfan mig að ég sé algjör lúði þegar kemur að því að stökkva yfir hesta í leikfimissölum! Þar sem ég hef ekki þurft að stökkva yfir marga leikfimihesta undanfarna áratugi hef ég verið nokkuð fótviss. Það læðist samt að mér gamla hræðslutilfinningin þegar ég þarf að stökkva yfir læki eða annað sem verður á vegi mínum. Enda hef ég oft lent í lækjum og skurðum, margfaldur íslandsmeistari í að lenda ofan í en ekki yfir. Aftur!

Mér varð hugsað til þess að við eigum flest einhverja hindrun sem við réðum ekki við sem börn sem varð til þess að við ákváðum að við værum svona eða hins segin. Sumir fóru í ræðustól og gátu ekki komið upp orði og hafa ekki farið síðan, sumir gátu ekki lært stærðfræði og hafa sniðgengið allt sem hefur með tölur að gera (nema fatnað). Sumum var strítt af því að þeir voru stórir, litlir, feitir, mjóir með gleraugu o.s.frv. Ég man eftir strák sem var kallaður „stóri“ en um leið og við vorum fermd þá varða hann meðalmaður. Ég man líka eftir einum sem var kallaður „litli“ og hann varð líka meðalmaður. 

Ef við horfum á skapandi máta á þetta þá segja kenningar um sköpunargleði (e.creatvity) að við verðum fyrst skapandi þegar við lendum á hindrun eða vegg. Ég varð akkúrat ekkert skapandi við að lenda á hestinum en núna þegar ég er að komast á seinna kynþroskaskeið – sem er rétt að nálgast breytingaskeiðið þá sé ég að nú er komið að því að hætta að láta hestinn skilgreina mig lengur. Ég sé mig í anda svífa yfir hestinn eða alla vega að sættast við leikfimisalinn aftur :-). 

Tallíhó.

Birtist fyrst á blog.is, 11.03.13