Ég viðurkenni það, ég fresta oft því sem hægt er að fresta til morgundagsins. Á morgun er ansi oft mantran mín. Sérstaklega þegar mér þykja verkefnin leiðinleg eða erfið… Ég fell þar með í flokk þeirra 95% einstaklinga sem fresta eða eru með frestunaráráttu svo að við nefnum þetta einhverju fínu nafni. Ég er mjög fegin að vera ekki ein um þetta. En vissuð þið að frestunarárátta hefur aukist samkvæmt rannsóknum? Dr Piers Steel er helsti fræðimaður á sviði fresturnaráráttu, rannsóknir hans benda til þess að frestunarárátta aukist vegna þess að við höfum fleiri og fleiri valkosti til að ýta undir frestunaráráttu. Sjónvarpsgláp í stað þess að taka til í bílskúrnum, flakka um í netheimum í stað þess að gera skattframtalið, hanga á fésinu í stað þess að ljúka við verkefnin (ekki að ég kannist við nokkuð af þessu..). Aukin tækni og nútímaþægindi verða til þess að við föllum í sófann eða stólinn fyrir framan skjái og aftengjum okkur. Líkaminn situr á sínum stað en hausinn er einhvers staðar fjarri og hefur engann tíma til að takast á við það sem hægt er að fresta! Frestunaráráttann er því eins og lítill skrattakollur sem hoppar út úr búri sínu um leið og við gefum færi á því. … og þannig frestast það sem við ætlum alltaf að gera og tíminn líður og aldrei verður neitt úr því að gera það sem ég ætlaði að gera…“ Æji – geri það á morgun!“
Ég er að kenna í MBA námi Viðskiptadeildar HÍ, í valkúrsi á öðru ári, hluti af námsefninu er að læra um frestunaráráttu. Verkefni þessarar viku, og næstu, er að spyrja sig á hverjum degi: Hvað get ég gert í dag sem ég hef frestað hingað til? Í þeim tilgangi að gera eitthvað í dag sem maður hefur frestað hingað til. Ég er að sjálfsögðu ekki undanþegin þessu verkefni. Ég hef þessa vikuna spurt mig þessarar spurninga og í kjölfarið gert ýmislegt. Sem dæmi má nefna; uppfært ferilskránna mína, eldað nýja rétti, flokkað leikföng, undirbúið greinaskrif og rannsóknir, sótt námskeið, lært að tengja tölvugræjur, hringt í ömmu, uppfært Linkedin síðuna mína, farið í göngutúr og fleira og fleira… Sannleikurinn er að ég á næg verkefni út árið sem ég hef frestað hingað til – þannig að kannski verður þetta bara árið sem ég hætti að fresta! Eða ætti ég kannski að fresta því fram á næsta ár?
Birtist fyrst á blog.is, 25.01.13