Ein af mínum uppáhaldsbókum frá barnæsku er sagan af litlu gulu hænunni. Litla gula hænan fann korn og hún sá ylvolgt brauð í hveitikorninu. Hún leggur upp í vegferð þar sem hún biður öndina, köttinn og svínið að hjálpa sér við að sá, þreskja og mala kornið. Þau svara um hæl „ekki ég!“ þegar er komið að því að hnoða deigið þá færa þau sig nær og hún biður þau enn um aðstoð en þau segja aftur „ekki ég!“. Hins vegar þegar kemur að því að borða ylvolgt brauðið þá vilja þau vera með, en þá var það orðið of seint.
Hversu oft segjum við ekki við okkur sjálf „ekki ég!“ en viljum svo gjarnan njóta uppskerunnar án þess að þurfa að fara í gegnum ferlið. Kynslóðarbilið hefur að öllu líkindum aldrei verið meiri en nú vegna þess hversu ólík reynsla eldri kynslóða og yngri er af lífinu. Þau sem nú alast upp og eru að komast á fullorðins ár eru vön allt öðrum vinnubrögðum en við hin. Ungt fólk horfir ekki á sjónvarpsþætti á þeim tíma sem þeir eru sýndir á sjónvarpsstöðvum, eins og við hin eldri erum vön. Þau horfa í tölvunni um leið og þátturinn kemur út. Þau hrærast í tölvuheimi þar sem þau hafa fullt vald á aðstæðum og fá umbun um leið. Strax! Ekki seinna. Síðan fara þau í skóla og finnst fáránlegt að læra um það sem hægt er að finna á netinu, strax! Þetta gerir það að verkum að biðin eftir verðlaunum seinna er þeim óskiljanleg.
Á sama tíma hefur heimilishald breyst gífurlega, milli kynslóða. Í Bandaríkjunum, samkvæmt rannsóknum, borða meðlimir sem búa undir sama þaki s.s. fjölskyldur einungis í 20% tilvika saman í viku hverri. Sú hefð að elda, setjast niður saman og borða er á undanhaldi í hinum vestræna heimi. Í Bretlandi borða, að meðaltali, 15% kvöldmatinn sinn í bílnum á leið frá vinnu. Í Bandaríkjunum eyða fullorðnir einstakingar að meðaltali fjórum klukkutímum á dag í sjónvarpsáhorf. Tími sem fer í að vafra á netinu eykst stöðugt.
Skyndilausnir, skyndimatur, skyndiafþreyjing og skyndikynni (ekki kannski í þeim skilningi sem mín kynslóð lagði í það orð) sem felast í samskiptum á netinu í stað þess að taka tíma í að hittast og tala saman er orðin viðtekin venja.
En litla gula hænan kenndi okkur nokkuð verðmætt – þegar við tökum tíma í að undirbúa jarðveginn og hlúa að því hversdagslega þá uppskerum við ylvolgt brauð og hvað er betra en það. Á jólaaðventu erum við oftast full af nostalgíu eftir löngu horfnum dögum, fólki sem horfið er á braut og minningum um langa daga sem liðu hægt. Biðin eftir jólunum var löng og svo virtist, í barnshuganum, að tíminn liði hægar og hægar eftir því sem leið að jólum. Njótum þess að stöðva tímann og huga að því sem mun aldrei beytast milli kynslóða. Fylla sál og hús af kærleik og óendanlegri gleði yfir því að vera til og hlúa að því hversdagslega um leið og við klæðum híbýli okkar og okkur sjálf hátíðarbrag.
Birtist fyrst á blog.is, 06.12.11