Það er erfiðara að ná árangri á einu ári en við höldum. Margar kenningar sem kenndar eru við sjálfshjálp bjóða upp á aðferðir til skyndilausna þar sem kraftaverkin gerast á stuttum tíma. Stjórnunar- og leiðtogabækur eru sumar í anda þessa. Fyrstu hundrað dagarnar í starfinu er titill á vinsælli leiðtogabók þar sem gert er ráð fyrir að leiðtoginn verði að ná árangri strax.
Hins vegar hefur komið í ljós að oftast tekur u.þ.b. þrjú ár fyrir stjórnendur að ná tökum á starfi sínu. Þeir sem nú eru á þingi ættu að vera nýkomnir inn í starfið að fullu nú þegar þeir standa í prófkjörsslagi fyrir næsta þing. Afburðaíþróttamenn æfa sig í mörg ár áður en árangur næst. Rithöfundar hafa oftast skrifað lengi áður en þeir ná árangri. Stundum er meira að segja talað um að það sé erfitt ef að fyrsta bók verði metsölubók því þá sé sá árangurinn alltaf viðmiðið og því erfitt fyrir viðkomandi að „keppa“ við sina fyrstu bók. Þeir sem slá í gegn ungir standa oft ekki undir því álagi sem slík velgegni færir þeim.
Það er hægt að ná miklum árangri á áratug en litlum á ári! Lífið er langt og ef maður er meðvitaður um að maður þurfi að hafa fyrir árangri og að allt taki sinn tíma þá hagar maður sér öðruvísi. Heppni er þar sem undirbúningur og tækifæri hittast. Óþolandi staðreynd að maður þarf alltaf að hafa fyrir öllu því sem óskað er eftir. Til þess að vinna hægt og þétt að því sem maður vill þá verður við að vita að hverju stefnt er. Þannig er hægt að taka undir með þeim sannleika að hamingjan sé að vita hvað maður vill og vilja það sem maður fær.
Vona að þú eigir góða, dimma desember daga og hafir eitthvað ljós að lýsa þér.
Birtist fyrst á blog.is, 29.11.12