Það besta við að sitja í flugvél (ekki að mér þyki það sérstaklega eftirsóknarvert svona öllu jöfnu..) er að maður getur setið með hvítvínsglas í hönd og lesið án nokkurrar truflunar (ja, nema kannski „te eða kaffi?“). Ég var að koma úr góðri ferð og nýtti tækifærið til að lesa nokkrar ævisögur leiðtoga. Ég sökkti mér niður í bækurnar hvenær sem tækifæri gafst. Með mér í för að þessu sinni, fyrir utan dóttur mína, voru Nelson Mandela, Steve Jobs og Stephanie Beacham en hún er bresk sjónvarps- og kvikmyndastjarna sem hefur gert garðinn frægann í landi Jobs, Ameríkunni.
Þar sem ég kenni leiðtogafræð þá eru þessir einstaklingar mér sérstaklega hugleiknir. Þeir sem ná miklum árangri í starfi leiðtoga. Til langs tíma gerðum við ráð fyrir að leiðtogar væru betri en annað fólk, fallegri, greindari eða betur að guði gerð en við hin. Steve Jobs, sem nýlega féll frá, stofnaði meðal annars Apple fyrirtækið í Bandaríkjunum með vinum sínum. Hann var þekktur fyrir að vera óþolandi að mörgu leiti, hann átti til að gráta, öskra og niðurlægja fólk. „Ertu hreinn sveinn? Hefur þú prófað eiturlyf?“ Spurði hann, furðulostinn verkfræðing, sem sótti um vinnu hjá honum. Ekki beint það sem við kennum í mannauðsfræðunum um hvernig á að taka ráðningarviðtöl. Hann laug, sveik og tók heiðurinn af fólki. Nelson Mandela er viðkvæmur en sterkur. Hann hefur verið táknmynd lýðræðis og heilsteypra hugmynda í Suður-Afríku en hefur ekki sinnt sínum nánustu sérstaklega vel. Hann er nískur þegar hann gefur þjórfé og elskar að vera með hinum frægu og ríku.
Við erum aldrei einföld – hvorki þeir sem leiða né við hin. Steve Jobs var Picasso okkar tíma að því leiti að hans helsti kostur sem leiðtoga var að þeir sem unnu með honum trúðu á það sem hann sá sem framtíðarmöguleika. Þeir gátu gert svo miklu meira en þeir héldu sjálfir að þeir gætu með því að vinna með honum. Hann náði að láta hópinn sinn, sem hannaði fyrsta Mac-inn, skilja að þeir væru listamenn. Þess vegna voru allar vélarnar með undirskrift allra í hópnum, innan á vélunum. Hann sá inn í framtíðina og lagði sig svo allann fram í að vinna að markmiðum sínum af ástríðu. Þess vegna syrgði heimurinn hann sem mikinn leiðtoga. Nelson Mandela er líklega einn virtasti stjórnmálaleiðtogi samtímans. Hann fórnaði næstum þrjátíu árum í fangelsi fyrir málstaðinn en hefur sýnt ótrúlegan kjark í lífi sínu. Kjark sem hann segist ekki hafa haft heldur áunnið sér. Stephanie Beacham hefur orðið sjónvarps- og kvikmyndastjarna þrátt fyrir að vera næstum heyrnalaus.
Á síðustu dögum fyrir jól, þegar við öll verðum óþolandi, af og til, af stressi, svefnleysi, áhyggjum og jólaundirbúningi er gott að minnast þess að við eru ekki ein! Allir leiðtogar eru óþolandi stundum – og við hin líka. Þrátt fyrir það nær fólk árangri og er elskað – eins og það er.
ps- fyrir þá sem hafa áhuga á bókunum:
Walter Isaacso, 2011. Steve Jobs. New York. Simon & Schuster.
Stephany Beacham, 2011. Many lives an autobiography. London. Hay House.
Richard Stengel, 2010. Mandela´s way. Lesson on life. London. Virgin Book.
Birtist fyrst á blog.is, 19.12.11