Sæt, sexí, sjarmerandi og fleiri esss.

Sjálfsumhyggja (e. self compassion) hefur sterk áhrif á sjálfstraust. Sjálfsumhyggja felst í því að vera sinn besti vinur. Í því felst að koma fram við sjálfan sig eins og maður kemur fram við sinn besta vin. Þegar vinur manns á erfitt þá er ekki líklegt að maður segi „þú ert nú meiri auminginn, hættu að vorkenna sjálfrum þér og drullastu til að vera almennilegur…“ En ef þú lítur í eigin barm þá er ekki ólíklegt að þú segir slíkt við sjálfan þig þegar þér finnst eitthvað vera athugavert við frammistöðu þína.

Á Íslandi er sterk einstaklingshyggja, eins og í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hún lýsir sér í því að það versta af öllu er að vera venjulegur. Við viljum gjarnan að börnin okkar skari fram úr og að við sjálf séum sæt, sexí, sjarmerandi, klár og rík svo fátt eitt sé nefnt. Þegar fólk er spurt hvort það sé fyrir ofan meðallag á ýmsum sviðum svarar mikill meirihluti okkar að við séum það.  Þetta þýðir að við erum ekki hæf til að meta okkar eigin getu því okkur finnst við vera sætari, meira sexí og sjarmerandi, hæfileikaríkari og klárari en aðrir. Um leið og okkur finnst við vera „betri“ en aðrir þá erum við líklegri til að dæma aðra hart. Það kemur í ljós að þeir sem dæma aðra hart dæma sjálfa sig enn harðar.

Ef ég þarf á því að halda að finnast ég vera sætari, klárari og betri en aðrir til að mér líði betur þá er það soldið eins og að borða sykur þegar ég er þreytt. Maður borðar sykur og finnur vellíðan í smá stund en skömmu síðar þá verður maður enn þreyttari þegar blóðsykurinn fellur.

Annað sem vinnur gegn okkur er að finnast aðrir vera öðruvísi en við og því rétt að dæma þá harðar. Karlmaðurinn sem veittist að krökkum af asískum uppruna fannst greinilega að hann væri öðruvísi en þau. Sumum finnst hommar og lesbíur öðruvísi, geðveikir öðruvísi, feitt fólk er öðruvísi eða þeir sem búa annars staðar o.s.frv. Þessu fylgir einangrun og tortryggni.

Ef við getum sýnt okkur sjálfum skilning og verið okkar besti vinur þá skiljum við að við erum öll eins og öll eitt. Við förum í gegnum sambærilega reynslu,  við þjáumst og gleðjumst og við elskum og okkur er hafnað og það er sársauki í lífi okkar allra. Hvort sem við erum geðveik, samkynhneigð, svört, gul eða rauð.

Ef við sýnum okkur skilning og samhug þegar við erum stressuð á aðventunni eða döpur, glöð,  kvíðin eða kannski allt þetta. Þá finnum við leiðir til að staldra við og tala fallega til okkar, taka utan um okkur sjálf og dáðst að því hvað við og allir aðrir eru „fabílös“.

Birtist fyrst á blog.is, 06.12.12