Sársauki.

Þegar maður finnur til þá veitir maður sjaldan öðru athygli en verknum. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega æðrulaus þegar kemur að verkjum og sársauka. Ég vorkenni mér ferlega í hvert skipti sem ég fæ minnsta verk og læt öllum illum látum. Ég er heppin (og þeir sem í kringum mig eru) því ég er mjög hraust.

Sársauki hefur mikilvægan tilgang, hann segir okkur að eitthvað sé að og að við ættum að veita því athygli og gera eitthvað í málinu. Það er ekki hægt annað en að veita líkamlegum sársauka eftirtekt og gera eitthvað í því þegar maður er fótbrotin eða með blæðandi sár. Hins vegar er mikilvægt að gera sér grein fyrir að andlegur sársauki er af sama tagi. Ef það veldur manni sársauka að mæta í vinnunna þá er betra að hisja upp um sig buxurnar og finna út úr því hvað veldur sársaukanum. Það getur verið margt, samstarfsörðugleikar, ómögulegir stjórnendur o.s.frv. Ef sársaukinn af því að vera er meiri en góðu hófi gegnir þá er mikilvægt að fara. Ef sársaukin af slæmu sambandi er orðin of mikill þá er betra að fara úr því. Ef sársaukin af því að drekka eða dópa er orðin meiri en skemmtunin þá er betra að hætta. Ef sársaukin af því að skapa ekki neitt er orðin of mikill þá er best að skapa eitthvað og fyrst maður er að skapa eitthvað á annað borð. Þá mæli ég með að skapa fagurt líf. Besta leiðin til þess að búa til fagurt líf er að gera það sem veldur manni sársauka að gera ekki! Skrifa bókina, eignast barnið, stofna fyrirtækið, sættast við líkama sinn, finna lífsförunautin, vera ein/n, ferðast, vera heima o.s.frv. Láta ljós sitt skína sama hvað það þýðir.

Við getum tekið utan um sársaukann og borið virðingu fyrir því hver hann er: kennari og vitur vinur. 

Birtist fyrst á blog.is, 20.03.12