„Skammast mín fyrir að vera hamingjusöm.“

Ég hitti kunningjakonu mína um daginn, „heyrðu, sagði hún, þú ert alltaf að skrifa þessa pistla þína. Þú hefur ekkert skrifað um það að vera hamingjusöm og skammast sín fyrir það. Hvað er það eiginlega? Þú verður að skrifa um það…“.

Ég geri náttúrulega það sem ég er beðin um og ekkert kjaftæði. Það vill svo til að ég var á ráðstefnu um daginn í New York sem fjallaði um hamingjuna. Þar komu leiknir og lærðir og fjölluðu um hugtakið af mestu elju. Ég sat á fremsta bekk og drakk í mig fróðleikinn. Fræðimaðurinn (eða konan..) Brené Brown hefur helgað sig rannsóknum á skömm. Hún hefur komist að þeirri niðurstöðu, eins og kunningjakona mína, að við erum oft ofurseld skömm. Skömminn er mun sterkari og erfiðari tilfinning en samviskubit en fólk ruglar þeim oft saman. Þegar maður er með samviskubit þá finnst manni sem maður hafi gert/ eða ekki gert, eitthvað sem er rangt. Hins vegar ef maður skammast sín þá finnst manni sem maður sé ómögulegur, ógeðslegur eða hræðilegur. Margir hafa farið í gegnum erfiða lífsreynslu og lært að skammast sín sem börn og sú tilfinning fylgir þeim og jafnvel stjórnar þeim þangað til fólk tekur á því.  Hins vegar finnum við öll fyrir skömm, hvernig svo sem aðstæður hafa verið í uppeldi okkar. Við lærum smám saman, í gegnum samfélagið, fjölskylduna, vinina, kennara og aðra að skammast okkar.

 Til dæmis er mér sagt að ég eigi að skammast mín fyrir að fara ekki reglulega í Braselíuvax og að ef að það séu einhver óviðeigandi hár hvort sem er neðra eða efra þá sé það alls ekki við hæfi. Þetta var nú útúrdúr en sum sé svona lærum við að skammast okkar fyrir allt milli himins og jarðar.

 Af því að skommin er svo erfið tilfinning þá gerum við allt til að deyfa okkur fyrir henni, við eyðum, borðum, drekkum, vinnum of mikið eða gerum hvað sem er til að finna ekki til skammar. Skömmin gerir okkur lítil og okkur finnst eins og við tilheyrum ekki og viljum einfaldlega láta okkur hverfa. En um leið og við deyfum okkur fyrir skömminni þá deyfum við okkur fyrir öllum tilfinningaskalanum. Ekki gott.

Kunningarkona mín hafði rétt fyrir sér því ef við finnum fyrir hamingju þá verðum við oft hrædd um að eitthvað hræðilegt komi fyrir. Þetta er mannlegt. Við horfum á börnin okkar og fyllumst ást og um leið verðum við svo berskjölduð að við reynum að tryggja okkur með því að finna ekki þessa sælutilfinningu. Þannig geti guðirnir ekki hrifsað frá okkur neitt… Skömmin yfir því að hafa eitthvað sem aðrir hafa ekki, eða geta ekki, eða eiga ekki, getur líka leitt til þess að við trúum því að það sé betra að láta ekki ljós sitt skína. Skömmin er ekki góður fylgisveinn neins, við verðum að taka eftir því hvort skömmin gengur með okkur eða stekkur fyrir framan okkur. Við verðum að draga úr mætti hennar og helst af öllu vingast við hana.

Þegar stjórnendur og foreldrar segja „skammastu þín“ þá hefur það mun alvarlegri afleiðingar en við mætti búast. 

Svarið til kunningjakonu minnar er því í stuttu máli: Það er mannlegt að skammast sín, finndu fyrir tilfinningunni og afvopnaðu hana og haltu svo áfram að vera bullandi hamingjusöm. Því við hin viljum svo gjarnan vera í kringum þig þegar þú ert það!

Birtist fyrst á blog.is, 18.05.12