Sögur við eldhúsborðið.

Okkar dýpsta þörf er að tilheyra hópnum og þar með hvort öðru. Vísindamenn hafa komist að því að þetta er ekki einungis félagsþörf heldur er heilinn á okkur hannaður til þess að tilheyra. Þegar við tilheyrum ekki hópnum eða hvort öðru er hætta á að við veikjumst alvarlega. Samkvæmt þessum rannsóknum erum við ekki eitt heldur erum við hluti af öllum öðrum. Stærsta gjöfin sem við gefum er að gefa öðrum hlutdeild af sögu sinni því þannig getum við endurspeglað hvort annað og lært af hvort af öðru.

Þegar við sitjum við eldhúsborðið og segjum sögur erum við að seðja þessari þörf okkar og styrkja tengingar í heilanum sem gera okkur heilbrigðari.

Ég ólst upp við að það voru alltaf einhverjar konur í heimsókn og þær sátu við eldhúsborðið og spjölluðu saman um lífið og tilveruna. Fengu sér kaffi og sígó og þegar maður kom inn þá var strax sagt „farðu upp að læra…“ uppeldisfræðingar vita vel að þetta er ekki rétta leiðinn en einhvern veginn leiddist mér ekkert því ég fór bara upp í stiga og hlustaði á konurnar ræða hitt og þetta. „Í alvöru..“ og „ég bara átti ekki orð..“. Hláturgusur og hvísl. Nú á dögum gerum við þetta í gegnum fésbókina en áttum okkur kannski ekki á því að heilinn þarfnast mannlegrar örvunar til að tilheyra. Fésbókin verður aldrei eldhúsborðið og í stað þess að eyða miklum tíma í rafræn samskipti verðum við ríkari ef við fjárfestum í samskiptum við hvort annað. Kíkjum í kaffi og segjum sögur af lífinu við eldhúsborðið, tökum þátt í lífi hvors annars því við tilheyrum hvort öðru og heilinn á okkur verður líka svo miklu glaðari.

Birtist fyrst á blog.is, 01.05.12