Okkur vantaði einn ljósakúpul um helgina svo við fórum í tvær stórverslanir sem bjóða upp á slíkt. Jólaskreytingar mættu okkur við dyrnar og drengurinn fjögurra ára varð stóreygur. „Jólatré, jólatré… hvenær koma jólin?“ Ég var að hugsa um að segja honum að Frostrósirnar kæmu með jólin en ákvað að vera ekkert að flækja málin. Við hittum marga kunningja og vini, spjölluðum og skoðuðum allra handa ljós. Í spjalli flestra komu jólin upp og undirbúningur þeirra enda blöstu þau við okkur í búðunum. „Jólakvíðin“ farin að gera vart við sig sagði ein góð kona við mig.
Undirbúningur jólanna færist stöðugt nær á dagatalinu, og í búðunum, sem hefur sína kosti og galla. Flestir hafa gaman af því að sjá ljósunum fjölga. Það er eitthvað við það að lýsa upp mesta skammdegið hér á Íslandi sem er ótrúlega mikilvægt yfir dimmasta veturinn. Það eru margir sem byrja líka fyr að kvíða fyrir jólunum og jólahaldinu. Allt sem þarf að gera og allt sem ekki er hægt að gera. Hnútur í maga yfir því sem maður hefur ekki efni á og öllum þeim sem maður „þarf“ að sinna eða öllum þeim sem maður getur ekki sinnt. Þungi yfir brjósti yfir þeim sem eru farnir og því sem ekki varð. Tak í baki yfir allri gleðinni sem á að ríkja en ríkir kannski ekki innra með manni. Auglýsingarnar þar sem allir eru stórkostlega fallegir og glaðir með allt á hreinu, í einni ákveðinni tegund af fjölskyldu, getur ýtt við öllum þeim kvíðaröskunum sem hægt er að finna.
Væntingar okkar um hvernig lífið eigi að vera eru harður húsbóndi. Ekkert ýtir eins við okkur eins og hefðirnar í lífi okkar og hvernig þær „eiga“ að vera. Hvernig væri að breyta þessum væntingum og skilja að það sem er mögulegt og hægt að gera og hitt sem er ógerlegt. Teikna nýja mynd þar sem maður „þarf“ hvorki að taka eldhúsinnréttinguna í gegn né mæta á viðburði sem eru of dýrir fyrir mann eða kaupa frá sér allt vit sem endar í febrúar blús. Væntingar um tíma þar sem maður getur notið þess að gera það sem veitir manni gleði, kærleik og góðar stundir. Væntingar um að maður breyti því sem maður vill breyta en haldi hinu sem veitir frið og friðsæld. Aðventan er einn upphaldstími minn og þegar ég tek móti henni afslöppuð en ekki með lista af því sem ég „þarf“ að gera þá er ég og fjölskylda mín mun líklegri til að taka inn boðskap jólanna. Verum ekki að þessu stressi! Þó að búðirnar og auglýsingarnar séu farnar að ýta við okkur! Set hér að neðan æðruleysisbænina til að minna mig á og að mínu mati eru seinni tvö erindin ekki síðri en það fyrsta „njóta hvers andartaks fyrir sig…“. Njótum, njótum og njótum!
Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.
Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann er,
eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann
og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg
ef ég gef mig undir vilja þinn
svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi
og yfirmáta hamingjusamur með þérþegar að eilífðinni kemur.
Amen
Birtist fyrst á blog.is, 05.11.12