Taktur lífsins.

„Ég fer ekki í leikskólann, alls ekki.“ Mótmælti sonur minn í morgun, skólaskvísan var þreytt en gladdist þegar hún fattaði að í dag er miðvikudagur og því bara þrír dagar í helgarfrí. Við vorum öll soldið lúin eftir að hafa haft fyrir því að borða svona mikið páskasúkkulaði. Fríin eru dásamleg en það er líka gott að hefja hversdaginn aftur. Takturinn í lífinu er nefnilega mikilvægur. Dúnk, dúnk heyrir maður ef maður hlustar vel. Borða páskasúkkulaði er einn taktur en annar að fá sér svo fisk eftir páska. Takturinn í lífinu eykur gildi helganna, eykur gildi andstæðna og gerir það að verkum að lífslagið okkar verður taktfast.

Þegar maður leggur hart að sér við verkefni sín er gott að slappa af á eftir, að liggja í leti er nauðsynlegt til að hlaða batteríin en of mikið að því verður taktleysi. Borða vel af góðum mat er gott en of mikið er taktleysi. Kvart og kvein er nauðsynlegt en í of miklum mæli er það taktleysi. Of mikið af ferðalögum skapar eirðarleysi en ef maður fer aldrei neitt verður maður oft þröngsýnn og leiður á sjálfum sér og öðrum. Of mikil nánd eða samvera getur orðið þrengjandi en of mikil einvera gerir hvern mann brjálaðan. Sjónvarpsgláp og tölvuráf er gott og fræðandi en of mikið af því einangrar okkur frá hvort öðru. Vorið er einn taktur, sumarið annar, haustið er aðeins hægari taktur en jólin bæði hröð og hæg.

Ég er ósköp fegin að vera komin í hversdagstaktinn aftur, dúnk, dúnk,vinnan göfgar og allt það og ekki skemmir að það er stutt í helgina!

Birtist fyrst á blog.is, 11.04.12