Wanna fly, you got to give up the shit that weights you down. Toni Morrison
Um þessar mundir er myrkrið sterkara en ljósið þrátt fyrir að nýarssól færi okkur ögn meiri birtu með hverjum nýjum degi. Tími dulúðar fylgir myrkrinu og á áramótum er sá tími sem huldufólk og álfar fara á kreik. „Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja mér og mínum að meinalausum“. Þessa þulu er nauðsynlegt að fara með á gamlárskvöld, samkvæmt gömlum sið.
Á áramótum er gott að líta yfir farin veg og rýna í hvað það er sem við viljum losa okkur við svo að við getum þanið vængi okkar og flogið hátt í átt að nýjum markmiðum og draumum. Allir eiga sér drauma og þrár sem bíða þess að vera leystir úr læðingi með réttri markmiðasetningu. Á áramótum getum við þakkað fyrir allt það góða sem árið færði. Við getum fundið fyrir söknuði gagnvart því sem við þurftum að kveðja og gleði yfir því sem gaf. Á áramótum þegar sjónvarpið sýnir árið hverfa og nýtt birtast gerum við okkur öll svo ósköp vel grein fyrir því að tíminn líður áfram og hvert og eitt okkar er einu árinu eldri. Einu ári eldri og því þroskaðri og reyndari en um leið þá finnum við eftir því sem árin bætast við hversu ofurviðkvæm við erum gagnvart því að fresta ekki lengur því sem við látum okkur dreyma um.
Tími dulúðar lætur líka allar óskir rætast – ef maður hefur fyrir því að fara með þuluna og vita hvað það er sem maður sækist eftir. Gangi ykkur vel að fara í drauma- og óskaleit. Megi nýja árið verða til þess að vængir ykkar fá þann byr sem markmiðin geta stýrt.
Birtist fyrst á blog.is, 28.12.11