Nefndu einn pólitíkus sem hefur ástríðu fyrir samfélaginu?

Hann horfði á mig með stingandi augnaráði. „Nefndu einn pólitíkus sem hefur ástríðu fyrir vanda samfélagsins?“ Hann hafði sagt mér við að hann ynni við að hjálpa börnum og unglingum í vanda. Við hittumst fyrir tilviljun á samkomustað. Ég reyndi að segja honum að enginn væri í pólitík sem ekki hefur ástríðu fyrir að bæta samfélagið. Hann hristi höfuðið áður en hann gekk í burtu. Ég var hugsi eftir þetta samtal. Þó er það líkt öðrum samtölum sem ég hef átt síðan ég hóf störf í pólitík. Það kom mér í opna skjöldu hversu mikið vantraust fólk ber til þeirra sem starfa í pólitík. Ég hafði gert mér grein fyrir því áður en starfið sjálft hefur breytt mér og viðhorfum mínum. Um leið og einhver stígur fram til þjónustu í sveitastjórn eða á þingi hefur viðkomandi ákveðið að gera það með ákveðnum flokki fólks. Það eitt og sér gerir það að verkum að sumir „hata“ flokkinn og finnst þar af leiðandi ljómandi fínt að láta fólk vita af hverju það er. Allt í einu eru ákveðnir einstaklingar sem snúa baki við þér en aðrir sem klappa þér á axlirnar. Flestir sem gefa kost á sér gera það vegna þess að þeir sjá vanda sem þeir vilja leggja sitt á vogarskálarnar til að leysa. Ég sjálf kom inn í borgarpólitík eftir að hafa starfað í foreldrafélagi og verið mjög óánægð með framgöngu borgarinnar gagnvart skólanum.

Allt í einu var ég komin í framboð og í framhaldi kjörin borgarfulltrúi og komin með málefni allra skólastofnana borgarinnar í fangið. Krísur á hverjum degi. Í því umhverfi er fólk sem er sannfært um að maður sé ekki að standa sig. Fjölmiðlar sem hringja daglega og sumir snúa svo út úr því sem sagt. Margir fundir með borgurum þar sem þú ert ábyrgur fyrir ákvörðun sem er óvinsæl. Þar falla orð sem maður er furðu lostinn yfir að fullorðið fólk segi hvert við annað. Ástríðan sem þú hafðir í upphafi getur orðið minni eftir því sem þú upplifir meira vantraust. Hin lýðræðislega umræða ein og sér getur vakið ástríðu eða drepið hana. Allt sem pólitíkusar ákveða og gera er eðlilega skoðað ofan í kjölin. Gagnrýnt, sundurgreint og yfirfarið. Meirihluti og minnihluti takast á. Fjölmiðlar vaka yfir því sem aflaga fer. Þegar vel er gert er ekki endilega sagt frá því. Hver flokkur þarf á því að halda að vera endurkjörin og því er mikilvægt að koma því til skila sem vel er gert. Stundum er það gert á kostnað einhvers annars.

Það hefur verið mikill lærdómur og forréttindi að vera kjörin fulltrúi þetta kjörtímabil, ég er afar þakklát fyrir það. þrátt fyrir að ég hafi enn ástríðu fyrir vanda samfélagsins sem þarf að laga mun ég ekki halda áfram. Óska þeim sem núna eru að huga að framboði hins allra besta. Mér finnst að allir ættu að vera í pólitík í eitt kjörtímabil. Ætti að vera þegnskylda, eins og hjá Grikkjum til forna. Þannig myndi gjáin milli þeirra sem eru kjörnir og hinna minnka. Vantraustið sem gegnsýrir og eitrar umræðuna myndi hugsanlega minnka þegar fólk gæti sett sig í spor þeirra sem eru að reyna að leysa vanda samfélagsins eftir bestu getu.

Ég hefði getað sagt manninum, ef hann hefði viljað hlusta á mig, að allir pólitíkusar sem ég þekki í öllum flokkum hafa mikla ástríðu fyrir að leysa vanda samfélagsins. Dagur þeirra hefst snemma og lýkur seint við að gera nákvæmlega það. Hins vegar má takast á árangurinn og hvernig við náum saman að leysa brýnustu vandamál samtímans.