Um mig

Háskólakennari

Í starfi mínu sem dósent við Viðskiptadeild Háskóla Íslands hef ég einbeitt mér að rannsóknum og kennslu í leiðtogafræðum, breytingastjórnun, framtíðarþróun vinnumarkaðar, mannauðsstjórnun og þekkingarstjórnun. Ég hef tekið þátt í að móta og leiða nýjar námslínur, eins og MBA nám bæði við HR og HÍ.

Höfundur og fyrirlesari

Ég hef ástríðu fyrir að valdefla fólk til að stýra stefnu lífs síns. Því hef ég skrifað handbækur með það í huga. Fyrsta handbók mín, Móti hækkandi sól, er um hvernig hægt er að auka von og heppni í lífi sínu. Þar voru í kynntar kenningar úr jákvæðrar sálfræði. Önnur bók mín, Á réttri hillu fjallar um hvernig fólk finnur fjölina sína í vinnu. Þar eru kynnt manngerðaprófið Meyers-Briggs til aðstoðar og tekin viðtöl við fólk. Næsta handbók fjallaði um hvernig við verðum sterkari í seinna hálfleik. Bókin nýtir bæði viðtöl og fræðilega umfjöllun um lífsskeiðin, umbreytingar, breytingaskeiðið og þroska. Síðan kom út bókin Völundarhús tækifæranna sem skrifuð er með Herdísi Pálu Pálsdóttur. Í henni nýtum við framtíðarfræðin til að spá fyrir um þróun á vinnumarkaði. Næsta bók mun koma út árið 2026 en hún fjallar um tækifæri til að verða enn sterkari og taka við stjórnartaumunum í okkar lífi eftir fimmtugt.

Stjórnunarreynsla

Ég hef sinnt fjölmörgum og fjölþættum ábyrgðar- og stjórnunarstörfum. Hef bæði verið kosin til áhrifa, sem dæmi, í stúdentaráð og háskólaráð, borgarfulltrúi og formaður foreldrafélags. Ég hef einnig verið valin til að sinna fjölbreyttum stjórnunarstöðum: Setið í stjórn m.a. Samkaupa, Byr, Félagsbústaða, Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Endurmenntunar HÍ, Sorpu og Viðskiptafræðistofnunar HÍ. Verið formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, formaður atvinnuleysisnefndar, jafnréttisráðs, fjölmargra hæfnisnefnda og setið í mörgum opinberum ráðum. Almennt séð komið að stefnumótun á mjög víðtæku sviði sem hefur stutt við kennslu og rannsóknir mínar.