Samkvæmt skilgreiningu WHO erum við miðaldra frá sirka 40-75 ára. Við lifum líka lengur. Ekki eingöngu lifum við lengur heldur erum heilbrigðari lengur. Segja má að þeir sem eru um sjötugt séu síð miðaldra samkvæmt þessari skilgreiningu. Hversu mikið líf er í okkur um þann tíma er að nokkru leiti í okkar eigin höndum.
Flestir gera ráð fyrir því að hætta að vinna, setjast í helgan stein og sinna áhugamálum sínum. Fólk sem enn, samkvæmt skilgreiningunni, er miðaldra.
Hvað ef fólk myndi gera ráð fyrir að breyta starfi sínu, verkefnum sínum eða því hvernig það vinnur miðað við langa starfsævi? Líkurnar á því að fólk myndi brjóta upp starfsferill sinn með því að taka lengri tíma til að byggja sig upp, líkamlega og andlega myndu aukast. Fólk fer frekar í nám eða breytir um til að halda sér við. Tekur eitt ár á hverjum áratug til að byggja sig upp með námi eða því að verða aftur byrjendur á einhverju sviði. Síð miðaldra fólk verður að halda sér í góðu formi, bæði líkamlega, andlega og fjárhagslega til að takast á við ný verkefni. Ekki má gleyma tilfinningalega þættinum. Félagsleg tengsl eru grundvöllur að heilbrigði almennt.
Vinnumarkaður framtíðar bíður upp á ný tækifæri. Tækifæri til að stunda „vinnu“ öðruvísi en sú kynslóð sem nú er síð miðaldra vandist. Gigg hagkerfið er ekki eingöngu hark þeirra sem ekki hafa færi á öðru. Gigg hagkerfið er fyrir þá sem geta selt reynslu og þekkingu með öðrum hætti en hefðbundnum starfssamningi. Þeir sem eiga húsnæði leigja í auknum mæli. Fólk ferðast með því að skiptast á húsnæði eða passa gæludýr. Fara til annarra landa og vinna létt verk. Sumir taka gigg eins og að keyra bíla eða vera með leiðsögn. Framleiða peysur eða bækur. Selja þekkingu sína og reynslu á markaðstorgi sem áður var eingöngu ætlað fyrirtækjum eða skipulagsheildum.
Miðað við mínar rannsóknir, ég er að skrifa bók um þetta, þá er stöðugt mikilvægara að vera alltaf að reyna sig við eitthvað nýtt. Hvort sem það er nýtt tungumál eða dans eða formlegt eða óformlegt nám. Halda sér við tæknilega og eignast vini á öllum aldri. Viskan sem fæst með hverju ári sem bætist við verður ekki bætt upp með gervigreind. Það er hægt að láta gervi greinina finna sjúkdómsgreiningu miðað við milljónir annarra á sekúndubroti. Flestir vilja samt sem áður lækni sem hefur reynslu af því að meðhöndla sjúklinga til að vinna með. Eftir því sem læknirinn verður eldri eykst viska hans.
Þeir sem eru síð miðaldra núna eiga tækifæri sem forfeður og mæður okkar hefðu aldrei látið sig dreyma um. Raunveruleg fjárfesting í tengslum, réttri næringu fyrir líkama og sál er sú fjárfesting sem skilar mestu. Þannig verður valkostur þeirra sem eru síð miðaldra mun fleiri. Vinna, verkefni eða helgur steinn, allt eftir smekk.
Nú þegar það er komið síð sumar er tími til að spyrja sig hvernig maður ætlar að fjárfesta í sjálfum sér á þessum vetri?