Það skemmtilega við rannsóknir er að þær geta kennt manni hvernig við viljum lifa vs. hvað fólk heldur að skipti máli. Samfélagslegur þrýstingur um að gera eða vera á einn eða annan máta kemur ekki aðeins frá ytra umhverfi heldur innan úr heilastarfsemi okkar sjálfra. Hið tæknilega heiti á þessu er „collective illusions.“ Á samfélagsmiðlinum Twitter, sem heitur nú X, eru það um 10% sem tjá sig með háværum hætti en yfir 80% þegja eða sitja hjá. Vandamálið er að háværustu raddirnar eru oft með mjög andstæð og öfgafullar skoðanir. Þegar við sitjum hjá fær heili okkar smám saman þau skilaboð að við séum hluti af samfélagi sem trúir einhverju sem okkur finnst vitleysa – en við þorum ekki að tjá okkur. Öflin sem halda okkur í skefjum eru okkar eigin heili sem vill tilheyra hópnum, samfélaginu. Innst inni vitum við að við erum ekki sammála en segjum ekkert. Það sem ein kynslóð trúir að sé rétt verður skilgreining á þeirri næstu. Z kynslóðin, þeir sem fæddir eru frá aldarmótum til 2020, telur að allir vilji verða frægir. Skiptir ekki máli fyrir hvað. Þetta fyrirbrigði er að einhverju leiti framkallað vegna samfélagsmiðla. Þegar horft er til gilda flestra þá er frægð ekki ofarlega á lista í raunverulegum rannsóknum. Flestir vilja láta gott af sér leiða. Eignast fjölskyldu og góða vini og vera fjárhagslega sjálfstæðir. Hins vegar þegar fólk er spurt hvað það telji að aðrir vilja þá nefnir það frægð. Áhrifin af þessu gætu orðið að næsta kynslóð á eftir mun telja sig vera að missa af lífinu ef þau eru ekki orðin „fræg“ um þrítugt.
Heilinn á okkur metur upplýsingar úr umhverfinu eftir því hvort við föllum í hópinn eða ekki. Þetta hefur ekki verið vandamál fyrr en núna þegar við erum öll tengd á samfélagsmiðlum. Hin þögli meirihluti segir ekki neitt til að láta ekki benda á sig. Heimurinn virkar mun svart, hvítari en hann er og smám saman fara fjölskyldur ekki að tala saman og vinir tala ekki um málefni sem gætu verið viðkvæm. Hins vegar ef þú veist að um fjórðungur af því sem þú sérð á samfélagsmiðlum eru róbótar sem stýra efni og svörum gætir þú hugsað þig um. Róbótarnir sem talið er að sé stýrt frá m.a. Kína og Rússlandi eru ekki til að setja fram hættulegustu skoðanirnar heldur til að stýra þeim skoðunum sem verða ofan á.
Það hefur aldrei verið mikilvægara að þú segir þína skoðun út frá þínu gildismati því við erum meira sammála en ekki.